mánudagur, janúar 07, 2008

Nýtt ár, nýjir tímar!
Ætla ekki að láta líða ár á milli blogga hjá mér, sérstaklega ekki eftir skemmtilegt grín sem gert var að bloggurum í áramótaskaupinu. Hrikalega fannst mér síðasta atriðið fyndið þar sem allir voru að syngja Ísland er landið. Þeir sem vinna á frystihúsunum og í álverunum eru ekkert Íslendingar og er nákvæmlega sama um Ísland og þess vegna alveg absúrd að þau væru að syngja þetta ægilega ættjarðarlag. Ég allavega skellihló og fannst kaldhæðnin fyndin, sat reyndar í fullri stofu af skyldfólki Óskars og var sú eina sem hló, sem gerði þetta eiginlega bara fyndnara.
Núna eru framundan nýjir og breyttir og góðir tímar hjá mér og mínum, við hjónin ætlum að þreyja þorra og góu, sem er átak til þess gert að stuðla gegn markaðshyggju í samfélaginu og vera umhverfisvænni og heilbrigðari. Höfum aðeins misst tökin á efnishyggjunni og vísavæðingunni, náði reyndar nýjum hæðum um helgina þegar við fórum í fjölskylduferð í borg óttans. Það grípur mig bara eitthvað æði þar sem mér finnst ekkert geta bjargað mér úr lífsins ólgu sjó nema neysla, hvort sem það er á mat eða vörum eða afþreyingu, bara ef það kostar peninga þá hjálpar það. Við erum að tala um að mig langaði í nýja mubblu í stofuna sem ég nákvæmlega ekkert með að gera, það er ótrúlegt hvað maður getur misst stjórnina ef maður gleymir sér.
Ég finn það hjá mér að ef ég passa mig ekki þá missi ég heyrnina, þannig að ég gleymi hvað það er sem skiptir mig máli og hvaða atriði það eru sem ég vil hugsa um og ganga út frá. Stundum er bara hávaðinn af daglega lífinu svo mikill og þessu amstri að láta allt ganga vel og líta vel út og halda öllum góðum og svona að ég bara hætti að heyra í sjálfri mér. Það var eitt það besta við að taka heilt ár í fæðingarorlof (fyrir utan náttúrulega dísina mína og tímann með henni) að ég fór að heyra miklu betur í sjálfri mér, hvað það er sem skiptir mig máli og hvernig manneskja ég vil vera. Við hjónin tókum fínar umræður um þessi mál á leiðinni til og frá Reykjavík, þannig að núna erum við mjög meðvituð og langar að taka smá átak í að vera dugleg í því sem okkur finnst skipta máli og þess vegna ætlum við að þreyja þorra og góu.
Gaman að vera komin aftur, langar að vera duglegri að blogga og tjá mig á blaði.