Fyrir mér er aðdragandi jólanna alltaf erfiður tími, verð alveg rosalega "mellankolísk" og döpur. Fer að hugsa um alla sem eiga um sárt að binda og hafa átt erfitt ár, eða kannski mörg erfið ár, finnst ég ofboðslega heppin en samt um leið trúi ég því eiginlega ekki að þessi lukka mín sé komin til að vera. Núna er ég til dæmis rosalega hrædd um Minnu, og ekki bara að það komi eitthvað hræðilegt fyrir hana heldur líka að ég gleymi. Gleymi því hvernig hún er í dag og hvað hún sagði í morgun og hvernig hún knúsaði mig í gær og og og ... svo sakna ég líka þess sem var, hvað hún var ofboðslega lítil og brothætt. Var að skoða gamlar myndir og fattaði þá að ég var búin að gleyma því þegar þessi og hin myndin var tekin og nákvæmlega það sama á ég eftir að hugsa þegar ég skoða myndir ársins í ár á næsta ári. Þetta finnst mér rosalega sorglegt, eins og ég sagði þegar hún var bara nýfædd og við ennþá á fæðingadeildinni: mig langar að halda á henni með kinnina hennar við mína kinn, alltaf. En eins og ljósmóðirin benti á þá verður það erfitt þegar hún er að fermast til dæmis.
Ég veit ekki af hverju þessar tilfinningar verða svona sterkar fyrir jólin, flestir sem ég þekki gleðjast aðallega. En það eru náttúrulega líka áramót og kannski spila þau stærri rullu í þessu en ég geri mér grein fyrir, þannig að ég er að fara yfir hlutina hvernig þeir voru og hafa verið og eins að velta því fyrir sér hvernig þeir muni verða í framtíðinni. En það er svo ótrúlegt að mörg undanfarin ár hafa verið þau bestu í lífi mínu og einhvern vegin býst ég aldrei við að það næsta geti orðið betra, en samt verður það það trekk í trekk. Ætli mér sé ekki bara svona eðlislæg svartsýni eða biturð hvað þetta varðar? Eða að mér finnist ég hafa himinn höndum tekið nú þegar? Gæti líka verið það.
sunnudagur, desember 10, 2006
Komdu fram við aðra eins og þú vilt að þeir komi fram við þig
Fyrri færslur
- Jæja nú held ég að pössunarmál sumarsins séu nokku...
- Lokaverkefni lokiðnú er lokaverkefninu lokið og þa...
- Sko við förum nú flest í búðina einhvern tíman og ...
- Innsæi Tölvutækni er oftast af hinu góða og gaman ...
- Ég hef til dæmis fengið orð í eyra fyrir að vera e...
- Ljótan er orð sem ég nota yfir það að finnast ég v...
- Vorkun,af hverju er þetta orð neikvætt? er ekki öl...
- Bloggaði fyrstu færsluna mína í langan tíma í gær ...
- Hvers vegna eru ungir Íslendingar hræddir við útle...
- Rúmum 7 mánuðum seinna fannst henni aftur tímabært...
<< Heim