sunnudagur, desember 17, 2006

Jólin, jólin alls staðar,
Mér finnst skemmtilegasti parturinn af jólunum (eða undirbúningi þeirra) vera að hugsa um og velja jólagjafir, allavega flestar jólagjafirnar. Mér finnst svo gaman að velta því fyrir mér hvað fólki vanti eða langi í, eða að gera eitthvað sem ég er ánægð með og gefa á alla línuna eins og ég hef stundum gert. Núna í ár fá til dæmis flestir krakkarnir sömu gjöfina, eða sko hver sniðin fyrir hvert barn en samt sama hugmyndin. Eitt árið vafði ég fullt af krönsum og límdi myndir og málshætti á platta og hengdi á kransana og gaf vinum og vandamönnum. Svo finnst mér rosalega gaman að skrifa jólakortin og vitna í eitthvað sem ég hef gert með þeim sem ég er að skrifa til yfir árið. Gera þetta aðeins persónulegra en önnur kort og láta fólk vita að þegar ég skrifa kortin er ég virkilega að hugsa til þeirra og rifja upp hvaða góðu stundir maður hefur átt á árinu, eða fyrr. Maður er nefnilega að senda glettilega mörgum kort sem maður hittir kannski rétt svo einu sinni á ári, en það gerir kortin ekki síður mikilvæg fyrir manni. Finnst eiginlega ennþá mikilvægara að senda þeim sem ég hitti sjaldan kort en þeim sem ég hitti oft. Núna er maður virkilega kominn í jólagírinn, búinn að pakka öllum gjöfum inn og skrifa flest jólakortin, Sunna komin í heimsókn og allt að verða rólegt og skemmtilegt.