laugardagur, apríl 16, 2005

Unglingar: þeir eru sko alveg ótrúlegir, Jón Gnarr skrifaði aftan á Fréttablaðið um daginn að það ætti ekki að dæma þá svona hart og gera ráð fyrir hinu verst og bla bla. Já Jón Gnarr ég bíð þér bara að koma hérna og taka vaktina fyrir mig. Ég get svo svarið það að allar mýturnar virðast vera sannar, ekki það að mér hefur alltaf verið hálf illa við unglinga síðan löngu áður en ég varð einn sjálf og meðan ég var unglingur og núna líka þegar ég telst víst til fullorðinna (allavega verð ég að teljast til fullorðinna núna eftir að fjölskyldubíllinn var keyptur, við erum að tala um Subaru Forrester eins og enginn undir 50 á). En unglingar eru dónalegir, sinnulausir, ganga illa um, frekir, tilætlunarsamir, reykja, drekka, hrækja, henda flöskum út um gluggana, ganga illa um og svona gæti ég haldið áfram lengi lengi. Þetta eru bara atriði sem ég hef tekið eftir á síðustu tveimur vöktum mínum hérna, er ekki einu sinni byrjuð að taka fyrri reynslu inn í þetta eða það sem maður getur séð bara út um gluggann hérna. Ekki það að ég geri mér alveg grein fyrir því að ég er í Harleminu og eflaust eru til ágætisgrey inn á milli, það fer bara svo ansi lítið fyrir þeim. Reyndar tveir hérna sem hafa verið alveg til fyrirmyndar, en maður tekur sko vel eftir þeim í þessum hafsjó af aumingjum og lýð, og hana nú.

Annars er ég þessa dagana rosalega mikið að velta pólitík fyrir mér, já já flestir halda að það komist ekkert annað að hjá óléttum konum en börn og þess háttar en ó nei ég er bara að velta pólitíkinni fyrir mér, hún er nú meiri tíkin. Er með einhverjar hvatir þessa dagana til að "velja" mér flokk, já langar að vita hvort ég gæti verið flokksbundin, því eins og móðir mín sæl segir þá er betra að vera innandyra og geta látið til sín taka en stöðugt að nöldra utan við. Er samt ekki alveg að sjá hvaða flokk ég ætti að velja.
Sjallarnir koma ekki til greina, hafa aldrei gert það og ég efast um að þeir geri það nokkurn tíman
Framsókn er að gera mig geðveika með þessum virkjunarmálum
Vinstri grænir eru á móti aðild að ESB
Samfylkingin er ekki að heilla mig neitt sérstaklega þó ég geti kannski ekki bent á hvað mér líkar ekki
Og ég veit ekki hvað ég á að eiga sameiginlegt með vestfirðingum og kvótasvindlurum í Frjálslyndum
Þannig að eftir stendur að ég velti þessu bara fyrir mér áfram, er samt alveg að komast á það stig að fara kannski að kynna mér málið en ekki bara hugsa um það og velta því fyrir mér, allavega verður næsta kosningaákvörðun tekin að mjög svo vel athuguðu máli.