þriðjudagur, febrúar 07, 2006
Ljótan er orð sem ég nota yfir það að finnast ég vera ljót, þá er ég með ljótuna (veit ekkert hvar ég lærði það) eins er ég búin að búa til annað orð af sama stofni, að vera með lilluna (ekki sko að vera með Minnu) heldur að vera lítill í sér. Ég hef sem sagt verið með mjög slæm einkenni af ljótunni núna í nokkrar vikur og því fylgja oft misalvarleg einkenni af lillunni. En í gær þá sagði ég ljótunni upp, allavega í bili. Já við hjónin skelltum okkur á þessa fínu árshátíð hjá KEA, þar sem vel var veitt af víni (ekki of vel af mat en góður samt) og félagsskapurinn var prýðilegur og þetta varð hin fínasta skemmtun. En til að geta farið á árshátíðina og skemmt mér varð ég að skilja við ljótuna, það gerist í nokkrum skrefum, fyrsta skrefið er að verða ljótari. Það felst til dæmis í því að fara í klippingu (hver er sætur með blautt hár og þessum kuflum sem láta mann líta út fyrir að vera ekkert nema höfuðið) lita á sér hárið og augabrýr og svona. Svo eru peninga útlát óneitanlega stór þáttur í því að skilja við ljótuna. Já við vitum það að enginn skilnaður er ókeypis (þó hjón fái afslátt ef þau hafa verið gift í innan við ár, en það er allt önnur ella). Þannig að mín gerði sér lítið fyrir í gær og keypti sér einkar kvenlega skó, sem hún var reyndar nýbúin að lýsa því yfir við vinkonu sína að hún gæti ekki verið í, því eins og bóndi einn á Tjörnesinu sagði við mig í gamla daga "þú ert nú ekki mikil dama Auður mín". En í bili allavega hefur ljótan verið hrakin á brott, flogin í vil, og ef ég er farin að finna hana anda ofan í hálsmálið hjá mér þá fer ég bara í nýju skóna mína, sem einungis dama getur verið í, og spranga innan um matarleifar, leikföng og þvott.
<< Heim