fimmtudagur, júlí 31, 2003

Fyndið hvað það liggur einhver djamm fílingur í loftinu, er samt eiginlega ekkert að fara að djamma, nema aðeins á sunnudaginn. Ég er einhvern veginn uppveðruð og spennt, líka fyrir því að gera brúðavöndinn, mér finnst það rosa spennandi, gaman að sjá hvernig hann kemur út miðað við hinn sem ég gerði í sumar og svona, verður allavega allt öðruvísi. Svo er stemmingin hérna í bænum og alls staða svo létt og skemmtileg, allir að kaupa sér ný föt og fara í litun og plokkun og bara djollý á því. Fékk líka geggjaða staðfestingu á því áðan hvað ég var gáfuð að hætta í Víking, fæ alltaf sæluhroll þegar ég geng þar framhjá bara vegna þess að ég stóð nógu mikið með sjálfri mér til að hypja mig.

Rosalega er ég ánægð með að það eru fleiri óánægðir með Ástu hans Kela en ég, veit ekki hvort ég hrinti þessari öldu af stað en allt í einu finnst mér eins og allir séu geðveikt fúlir út í hana, mér nægði ein morgunstund (sem gaf ekki gull í mund) og þá varð ég að tjá mig um stelpu greyið. Hver ætli séu inntökuskilyrðin til að komast í sjónvarpið, stundum gerir maður ráð fyrir að þetta sé eins og í Hollywood bara sofa hjá einhverjum (sumir gætu allavega gert það ;)).
Sumum finnst ég kannski frekar dómhörð, en þið sömu ættuð bara að sitja með mér í stofunni að horfa á sjónvarpið á slæmum degi, þá er sko bitur kona sem talar, ég get alveg misst mig, held að þetta stafi af því að ég vandi mig á það í Reykjavík að tuða í umferðinni og þá meina ég missa mig helst. Núna bý ég bara í rólegu Akureyri og hef ekkert að æsa mig yfir í umferðinni þannig að ég verð bara að nota sjónvarpið. Mín reynsla er að það er miklu betra að losa sig við alls konar pirring á hlutlausum viðfangsefnum, skárra en að öskra á kallinn og krakkana og gæludýrin. Svo held ég að ég geti bara verið ansi fyndin þegar ég byrja, allavega er gjarnan mikið hlegið að mér þannig að það er plús.

Annars er þessi dagur búinn að vera alveg stórfínn, var búin að gleyma því hvað það getur verið gaman að vinna á ferðaskrifstofu þegar slatti er að gera og margt sem þarf að redda og svona. Svo er bara brúðkaup á næsta leiti og mér líður eins og það sé allt eftir samt þegar ég tel það upp er það alls ekki svo mikið.

miðvikudagur, júlí 30, 2003

Núna er ég símalaus, út af einhverju helvítis fokki, fékk þenna síma fyrir tæpu ári síðan og flest allt hefur gengið mjög vel en hef farið með hann áður í tékk og þá fannst ekkert en núna er eitthvað aftur að honum. Þoli ekki að þetta PAKK skuli ekki bara geta látið mann hafa nýjan síma þegar hann bilar í upphafi, nei það á að senda hann í viðgerð og maður fær einhver ömurlegan fornaldar síma í staðinn ef maður fær einhvern. Gjörsamlega þoli ekki að eini sénsinn til að fá almennilega þjónustu sé að fá eitthvert djöfuls frekjukast, er ekki hægt að hafa svona bara sem staðal? Kannski þurfa neytendur líka bara að verða kröfuharðari til að ekki sé valtað svona yfir þá, samt pínu fúlt að fá enga þjónustu nema vera fær um að fá flogakast inn í búðum. Ég get það stundum en ekki alltaf og minn heittelskaði getur það aldrei.

Mér finnst eins og allir í heiminum nema ég séu í fríi í dag, sem á virkilega eftir að hjálpa mér að lifa daginn af. En ef ég verð skárri í bakinu eftir vinnu, sem allt bendir til þá ætla ég að fara að tína smá lyng og skemmtilegheit svona. Maður verður að hafa einhverja gulrót til að lifa suma daga af og þá er einhvers konar útivera alveg tilvalin.
Svo verður næsta helgi líka skemmtileg, þannig að þetta er ágætt. Stundum verð ég bara virkilega að passa mig að láta ekki svartsýnina ná tökum á mér, mér er sagt að þetta séu kvíðaeinkenni, að sjá ekki fram úr hlutunum.

Svo þoli ég ekki þegar óleyst mál liggja í loftinu, bara rosa margir sem vilja frekar reyna að gleyma hlutunum og láta eins og þeir hafi aldrei gerst heldur en að gera bara almennilega hreint fyrir sínum dyrum.

Ég er sko alveg búin að sjá það að 4 tíma vinnudagur er fullur vinnudagur fyrir mér, er núna 3 daginn í röð 8 tíma og er gjörsamlega að krepera, það þarf allavega að vera töluvert mikið meira að gera til að ég nenni að vera í vinnunni svona lengi. Er aðeins skárri í bakinu en í gær, er að taka einhverjar rótsterkar verkjatöflur, hefði helst viljað sleppa því en úr því mamma mælti með því gat ég ekki annað. Það gæti líka haft áhrif að ég lagði mig klukkan 6 í gærdag og sá lúr varði til 7 í morgun, nennti ekki að fara á fætur í gærkvöldi og svaf bara eins og steinn, hefði alveg getað hugsað mér að sofa lengur í morgun. Skari gamli skilur ekkert í því að ég geti sofið svona mikið, en það er hæfileiki.

Ég fór á fætur um 7 og ætlaði að horfa á Ísland í bítið, hætti snögglega við það, hún þarna kerlingin úr stundinni okkar er algjör hrillingur. Var að lesa upp úr dagblöðunum og lét eins og hún væri æsifréttamaður hjá Reuter, alveg glötuð greyið. Ætti bara að halda sig við Stundina okkar og Kela karlinn, fór vel á með þaim og þau eru á svipuðu caliberi.

þriðjudagur, júlí 29, 2003

Shit hvað ég er að kálast í bakinu, bara eins og vöðvarnir séu að rifna í tvennt. Var samt ekki að gera neitt ægilegt í gær, fór eftir vinnu aðeins í sveitina og garðaði nokkra hringi, en fékk þetta líka skelfilega tak. Ætti í rauninni ekki að vera í vinnunni en er ekki þessi týpa sem er heima út af hverju sem er. Sé samt frekar eftir því að hafa komið í morgun, en það er enginn annar hérna, kannski fæ ég að fara fyrr heim.

Annars er nú allt meinhæft að frétta, ágætt að gera en samt nógu lítið til að maður geti aðeins surfað á netinu.

laugardagur, júlí 26, 2003

Vá mér finnst hundrað ár síðan ég bloggaði síðast, fínt tilefni núna þar sem ég er í miðjum klíðum að taka til og nenni ómögulega meiru. Fór útí Hrísey í gær að borða á Brekku, rosalega kósý og gaman, ótrúlega skrýtið samt að koma þarna aftur eftir svona rosalega mörg ár, grunar að þau séu að verða 7. Ég sem sagt átti heima þarna einu sinni frá 11 til 16 ára eða eitthvað álíka, mjög margar og misskemmtilegar minningar þaðan. Geðveikt fyndið samt, ég hef greinilega farið nokkuð oft í Brekku að kaupa Lottó og Daim, af því í gær þá fann ég Daim bragð upp í mér þegar ég stóð í andyrinu á Brekku og horfði á lottókassann, frekar crazy en datt. En það var rosalega góður maturinn þarna og vel úti látinn.

Annars er brúðkaup um næstu helgi sem ég er aðeins að vasast í, með skreytingar og vönd og svona, voða gaman. Svo fer að styttast í að maður fari suður, er með smá bakþanka en það verður að hafa það.

miðvikudagur, júlí 16, 2003

Var að fá fréttir af kisunum og þær voru mjög mismunadi, hún er víst í ágætum gír núna eftir að hafa fríkað út eftir að hafa verið sett í ól, var úti skíthrædd og köld og svöng heilan sólarhring, hann fór út á laugardaginn og hefur ekki sést síðan :(
Ég er voðalega svekkt yfir þessu, reyni að láta eins og þetta séu ekki mínir kettir heldur einhvers annars (sem það að vissu leiti er núna) mig langar helst að fara að skæla við tilhugsunina um hann einan og kaldann og svangan einhvers staðar. Liggur við að ég voni að hann fái að fara fljótlega til kattahimna, finnst það samt ekki fallega hugsað af mér. Æi mér finnst þetta ömurlegt, en auðvitað getur þetta alltaf gerst og þetta kemur mér ekkert sérstaklega á óvart, hann var oft svo stressaður greyið og viðkvæmur. Vonandi kemst hann aftur til baka, heyrir í systur sinni eða eitthvað, en það gengur víst rosavel með hana og þau eru mjög hrifin af henni, þannig að það er gott mál. Núna er ég náttúrulega að pæla hvort ég hefði ekki frekar bara átt að svæfa hann sjálf í satðinn fyrir að vera svona eigingjörn að láta hann vera einhvers annars vandamál meðan þetta var bærilegt fyrir mig? Æi ég vildi að ég hefði getað látið hann fara sjálf, þá héldi ég allavega ekki að honum liði geðveikt illa einhvers staðar :(
Kannski kemur hann aftur en ég á ekki von á að hann endist neitt þarna hjá þeim, því miður, væri samt betra að fá að láta hann fara sjálfur og vera viss um að það gerðist snögglega:(

Hlutirnir eru fljótir að gerast á eyrinni, síðan á föstudag bý ég í kattalausu húsi, kisulórurnar mínar fluttu til Húsavíkur sem sagt. Ef Safír er nógu gáfaður þá hættir hann þessu pissustandi og fær að lifa áfram. En það var mikil sorg á heimilinu þennan dag, eða meira kannski bara hjá mér, við erum að tala um að ég grenjaði næstum því úr mér augun, konu greyið sem tók kisurnar hafði ægilegar áhyggjur af mér, tók Helgu systir á eintal til að lýsa yfir áhyggjum sínum með að ég myndi spjara mig. Mér fannst það nú bara pínu fyndið og krúttlegt, en svona eftir á að hyggja finnst mér það kannski lýsa því svolítið vel hversu illa fólk höndlar þegar aðrir eru að sýna tilfinningar sínar.
Ég skammast mín ekki neitt fyrir að skæla þegar kisurnar mínar flytja að heiman eftir að hafa átt þær í þrjú og hálft ár, fyndist eiginlega miklu óeðlilegra að finnast þetta ekkert mál. Skrýtið samt að maður "megi" ekki hafa tilfinningar, ég var ekkert hágrenjandi eða neitt þegar kerlingin kom, bara pínu klökk og fannst þetta erfitt. En nóg um það, þeirra verður sárt saknað af mér allavega og Óskari líka, veit svo sem ekki með aðra fjölskyldumeðlimi, nema kannski Sunnu Bunnu.

Svo er Tengdó búin að vera í heimsókn í tvo daga með fósturdóttur sína og barnabarn, rosalega gaman að því, höfðum það bara mjög gott, fórum í bíltúr og borðuðum góðan mat og fengum okkur bjór og kjöftuðum. Þetta virðist ætla að verða fínasta sumar eftir allt saman, svona er að taka afstöðu með sjálfum sér og standa við hana, þó það sé erfitt. Verð mikið í fríi það sem eftir er af sumrinu og ætla bara að reyna að njóta þess í tætlur. Braut blað í sögu minni í morgun, vaknaði um átta, passaði litlu krúsíbolluna í klukkutíma og fór svo og hjólaði stóran hring á leiðinni í sund, þar lá ég í sólbaði og lét fara vel um mig, sofnaði reyndar en sem betur fer ekki með hendina á maganum á mér ;)

Svo er komið fínt plan fyrir helgina, ætla út í garð á morgun og kannski í Svarfaðardalinn, ætla á rúntinn á föstudaginn, fara á Siglufjörð og svona skemmtilegt eitthvað, svo ætla ég að byrja á smá gjöf á laugardaginn (má náttúrulega ekki segja neitt mikið af því ég geri ráð fyrir að ALLIR lesi þetta :)) og svo ætla ég að hjóla Eyjafjarðarhringinn fyrir hádegi á sunnudag og fara guideatúr eftir hádegi. Sem sagt mjög spennandi dagar framundan hjá mér, hrikalega hlakka ég til, vona bara að veðrið verði gott en ef ekki gerir það heldur ekkert til.

föstudagur, júlí 11, 2003

Já annað sem var rætt líka og manni finnst nú að verða ansi mikilvægt á þessari gervihnattaöld, það eru hvaða skilningur eru í samböndum varðandi framhjáhald, þið vitið hvað telst leyfileg hegðun og hvað er óviðeigandi og svo hvað er bara framhjáhald. Þessi umræða kom upp af því ég var í smá afbrýðisemiskasti yfir gamalli vinkonu sem verið er að emailast við.
Ok ég skal alveg viðurkenna það að ég er aðeins afbrýðisöm, eða kannski er hægt að segja að ég sé varkár. Ég til dæmis myndi ekki endilega vilja lesa allan póst eða eitthvað, nema ef ég vissi að ég mætti það ekki. Meðan Óskar heldur áfram að segja að ég megi lesa (geri það ekki en veit ég má það) þá er allt í lagi en um leið og það færi að vera bannað og eitthvað issue, þá yrði ég forvitin.
En svona email og sms og svona er ekkert smá vandmeðfarið og ég vildi bara aðeins fá á hreint hvað okkur fyndist í lagi og hvað ekki. Við vorum nokkuð sammála og þetta var bara til að koma málunum ennþá meira á hreint. Miðað við sögur sem maður heyrir (sérstaklega af femin) er alveg ástæða til að skoða þessi mál saman skaðar aldrei að ræða málin allavega.

En nóg af svona "væli" er að koma mér í helgargírinn, er að fara í afmælisveislu í kvöld og svo eru vinir mínir að koma í helgarheimsókn og bara gleði og gaman. Góða helgi allir saman og vonandi rætist eitthvað úr veðrinu svo maður fá lit, og þá meina ég ekki ryðbrúnan ;) Love jú

shit hvað það er lítið að gera í vinnunni, algjör skelfing. Ég er ekki að meika það að sitja hérna og gera ekkert, langar að vera heima hjá mér og taka til og gera fínt hjá mér, það er sko alveg að verða tímabært. Mig er farið að dreyma um allt sem ég er búin að ætla mér að gera, svo er farið að vaxa svo hjá mér gróðurinn, bæði inni í stofu og í matjurtagarðinum, ég þarf að fara að setja sniglagildrur svo þeir klári ekki allt salatið frá mér.

Annars er maður bara sæmilega stemmdur þessa dagana, við hjónakornin vorum aðeins að ræða málin og svona í gærkvöldi og það er alltaf gaman og gott, sérstaklega eftir á. Það er nefnilega mesta furða hvað hlutir sem maður lýtur ekki alvarlegum augum geta haft mikil áhrif á litlar sálir, hann stóri Óskar minn hefur nefnilega stundum ansi lítið hjarta og ég er solltið abbó, þetta eru niðurstöður gærkvöldsins.

fimmtudagur, júlí 10, 2003

Þá er maður komin í land aftur og ekkert sérlega sátt við það, fannst helvíti fínt að vera svona í fríi og hafa það gott þó Grímseyingar séu náttúrulega meira en lítið skrýtnir. Komum á bátnum hans Bjarna í gær og það var verulega scary, ég lét þó á engu bera og fannst ég nokkuð róleg bara, varð ekki einu sinni sjóveik eða neitt. Held bara að Bjarna sé að takast að gera mig að ágætis sjómanni, hef þrisvar farið með honum á Konráð (báturinn heitir að sko) og tvö af þeim skiptum var ömurlegt í sjóinn. Þó að ferðin í gær hafi ekki toppað ferðina í skírnina hjá Konný 18. sept. ´99 þá sá maður aldrei sjóndeildarhringinn og ekki eynna fyrr en maður var bara að sigla í höfnina, eða eins og hann sagði í gær við vorum 5 mínútur ofan í öldudalnum þá. Fórum frá Húsavík og vorum rúma fimm tíma á leiðinni, mér skilst að tengdamamma ætli aldrei aftur í bát með tengdasyninum en ég lét mér þessa ferð ekki að kenningu verða heldur fór aftur í gær. En eins og áður hefur komið fram var þetta bara ágæt ferð, þó sumar af lýsingunum sem ég var að segja litlu systur minni í gær hafi ekki fallið í mjög góðan jarðveg.

En núna er bara að fara í hreingerningar heima og svo er manni boðið í afmæli á morgun og svona, svo þarf líka að ákveða eitthvað í sambandi við kettina, held að við séum að fara að gefast upp, því miður en þolinmæðin er bara þrotin. Þannig að ef einhvern langar í læðuna krúttilegu þá endilega látið vita, gamli skröggur verður bara sendur til kattahimna.

mánudagur, júlí 07, 2003

Já ég þekki marga sem eiga afmæli um þessar mundir og venjulega myndi ég senda þeim sms en ég var svo sniðug að gleyma hleðslutækinu heima, þið vitið hver þið eruð og mér þykir rosalega vænt um ykkur og heyri í ykkur þegar ég kem í land.

Jæja þá loksins kemst maður í tölvuna, er sko á norðurhjara veraldar, aka Grímsey. Ætlaði með ferjunni áðan en datt sú snilld í hug að hringja í vinnuna og heyra hvort þau þyrftu mig nokkuð fyrr en á fimmtudag og Systa krútt sagði mér bara endilega að vera lengur, þannig að ég lengdi dvölina um tvo daga. Líka um að gera úr því maður loksins dreif sig, Skari greyið fór því bara einn í land. Var alveg með tár í augunum á bryggjunni, slatta samviksubit yfir að senda hann einann greyið en veðrið var æðislegt og hann var eiginlega einn á leiðinni hingað af því ég lá niðr í koju og ældi. Svo lofaði Rannveig mér því að veðrið yrði jafnvel betra á miðvikudaginn og kannski kæmi hún bara með mér, þannig að þetta fór allt á besta veg. Það er ægilega mikil blíða hérna núna, allavega í skjóli. Við skvísurnar (ég Rannveig Konný og Kolbrún) vorum í sólbaði fyrir framan kaupfélagið áðan. Ég veit þetta hljómar hræðilega en við sátum þar og vorum að sóla okkur.

Annars er ég laveg í skýjunum með sjálfa mig þessa dagana, hætti þarna í vinnunni og svo núna að vera lengur hérna út í ey bara af því mig langaði til þess. Ég elska að taka svona ákvarðanir bara fyrir sjálfa mig og af því mig langar til.
Þannig að mín er bara í hinu besta skapi og hlutirnir gætu varla verið betri, nema náttúrulega að minn heittelskaði væri hérna en se la ví.

miðvikudagur, júlí 02, 2003

Annars er ég bara að verða spennt að fara á Hvanneyri, verður örugglega slatta mikil breyting, vonandi allavega. Þekki líka svo marga skemmtilega þarna á svæðinu sem verður gaman að vera í sambandi við, einhverjir verða nú farnir suður eða eitthvert í burtu eftir sumarið en engu að síður, gaman að skipta um umhverfi. Finnst samt að þetta lið ætti að setja meira af upplýsingum ánetið einhver skortur á upplýsingaleysi.

Shit maður hvað það er lítið að gera í vinnunni, en þetta er að hafast, á bara eftir að vinna einn dag í minjagripabúðinni og fara einn túr á morgun með ferðamenn úr einhverju skipi og þá er ég komin í helgarfrí og eftir fríið þá verð ég í hálfu starfi. Það verður rosalega ljúft, það er svo geðveikt margt sem ég ætlaði að gera í sumar og það er eins gott að fara að drífa í einhverju af því. Er samt ferleg með að þurfa alltaf að hafa allt hreint og fínt í kringum mig, þannig að ég þarf að byrja á því að "eyða" orkunni í að þrífa og eitthvað vesen, en mér líður alltaf ansi vel á eftir þannig að það er fínt.
Það verður sem sagt verkefni næstu viku að taka til hjá mér og koma hlutunum á sinn stað og svona, ætla að fara að taka fram málningadótið mitt og svona. Svo er ég að fara á eftir og kaupa mér garn til að fara með um helgina, ætla að gera annað sjal. Hannaði og heklaði sjal sem er mjög skemmtilegt og fékk sem sagt pöntun í svoleiðis um daginn, fínt að hafa eitthvað um helgina.
Kannski maður reyni að komast snemma heim úr vinnunni og setja lappirnar aðeins upp í loft, er alveg orkulaus þessa dagana.

þriðjudagur, júlí 01, 2003

Um að gera að blogga helling úr því maður hefur færi til þess loksins. Eins og dyggir lesendur vita, þá hafa verið ansi mikil eggjahljóð í undirritaðri og búið að láta tékka aðeins á þeim málum, nýjustu fréttir af því eru að næsta skref fyrir okkur hjónin er að fara að taka pergotime, sem er eggloshvetjandi lyf. Það var niðurstaða nefndarinnar að gera ekkert í þeim málum fyrr en næsta vor, þegar við höfum verið sameinuð eftir vetrardvöl mína á Hvanneyri. Fyrir þá sem halda að ég sé eini aðilinn í nefndinni, segir bara hversu lítið þið þekkjið mig ;)
Einn af hæfileikum mínum, rosamörgum sko, er að þegar ákvörðun hefur verið tekin er ég bara sátt við hana. Núna til dæmsi er ég voða ánægð með að vera bara að fara suður, þar sem ég verð bara upp á sjálfa mig komin og þarf ekki að bera ábyrgð á neinu nema sjálfri mér, það er fínasta tilbreyting.

Yfir í allt aðra sálma, ég les oft femin, finnst gaman að sjá vandamálin sem fólk er að kljást við, les reyndar minna orðið af svörunum, þau eru yfirleitt þau sömu, en núna er eitthvað búið að uppfæra síðuna eða eitthvað og maður má ekkert fletta á henni án þess að það komi einhverjar fokkings auglýsingar, einhverjir litlir gluggar að segja manni að léttast og fá sér stærri brjóst og hvað veit ég. Þetta fer geðsjúklega í taugarnar á mér, nægilega mikið til að ég nenni ekki að lesa femin eins og ég gerði, fyrir utan að mér finnst þetta mjög óviðeigandi, þessi vefur á að hjálpa konum og svona en ekki að segja þeim hvernig þær "eiga" að líta út. Ekki það að ég veit, eða geri allavega ráð fyrir, að þær standi ekki sjálfar fyrir þessu en þær hljóta að geta spornað einhvern vegin við þessu.

Svo er verið að plana sumarfrí á fullu, verður gaman að skella sér eitthvað úr bænum, var reyndar alveg í fríi síðustu helgi, fyrsta heila helgin í sumar, fór á laugardaginn í bústaðinn til afa og ömmu og lá í sólbaði og hafði það gott. Mental note to self, ekki sofna í sólbaði með aðra höndina á maganum, þá kemur nefnilega mjög smekklegt handarfar.

Já það er ekki seinna vænna að fara að blogga eitthvað, komið nýtt lúk á þetta og maður vissi ekki neitt. Alltaf brjálað að gera hjá manni og bara gaman að því.
Helsta er það að ég tók mega afstöðu með sjálfri mér, borgaði skólagjöld í skólann sem mig langar í, hætti í vinnunni sem ég þoli ekki, er að vísu að vinna út þessa viku en samt, sagði nei við sumum leiðsögutúrunum sem ég hefði getað farið í og sagði upp á Terra Nova frá og með enda ágúst. Þannig að þetta er allt að smella hjá mér, er hrikalega ánægð með mig, finnst ég geðveikt vera að gera góða hluti fyrir sjálfa mig. Stressið var orðið alltof mikið, og besta merkið um að ég sé á réttri braut er að exemið sem spratt allt í einu upp fyrir 2 vikum er horfið, tilviljun ?? varla