mánudagur, febrúar 20, 2006

Innsæi
Tölvutækni er oftast af hinu góða og gaman að geta verið í sambandi við fólk um alan heim, lesið sér endalaust til um hina ýmsu hluti, bloggað, sýnt sig og séð aðra á barnalandi og margt margt fleira. En ég held að ókostirnir við alla þessa tækni og upplýsingar séu þeir að fólk er að missa innsæið. Þú þarft ekki að lesa lengi inn á femin til dæmis til að sjá að fólki virðist vanta innsæi, til dæmis við uppeldi barna sinna. Hver á að geta sagt þér hversu oft eða mikið barnið þitt á að sofa eða borða í gegnum netið? Hver á að geta sagt þér í gegnum netið hvort kærastinn eða strákurinn í vinnunni sé skotinn í þér? Ég ætla samt ekkert að gera lítið úr því að það getur verið gott að fá álit utan að komandi og fæstir eru einir í heiminum með hvað er að gerast hjá þeim. En eins og börnin þá eru þau eins mismunadi og þau eru mörg og mér finnst mikilvægast að reyna að skilja hvað hvert þeirra þarfnast. Þeir sem eiga fleiri en eitt barn eru fljótir að segja þér að með sama erfðamengið og svipaðar uppeldisaðstæður þá eru krakkar MJÖG ólíkir, hvað þá óskyldir aðilar. Þess vegna finnst mér mjög sorglegt að mæður og foreldrar skuli ekki treysta innsæi sínu betur, það er svo mikið af boðum og bönnum og reglum og aðferðum að það virðist ekki vera neitt pláss fyrir einstaklinga.

Ég hef til dæmis fengið orð í eyra fyrir að vera ennþá með Minnu mína á brjósti á nóttunni, en ég sé bara enga ástæðu til að hætta því af því mér sjálfri finnst það ekker mál að vakna einu sinni á nóttunni til hennar. Ef ég væri að vinna 8-10 tíma á dag væri ég örugglega ekki eins tilbúin í þetta en eins og er hentar þetta okkur báðum bara mjög vel. Ég á oft mjög góða tíma á nóttunni með litlu snúllunni minni, þá liggur hún í fanginu á mér og umlar og strýkur mér og svo sofnar hún með höfuðið á bringunni á mér. Þetta finnast mér ómetanlegar stundir sem ég alveg örugglega ekki eftir að sjá eftir því að hafa veitt okkur báðum þegar hún vex úr grasi, sem á eftir að gerast alltof fljótt.

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Ljótan er orð sem ég nota yfir það að finnast ég vera ljót, þá er ég með ljótuna (veit ekkert hvar ég lærði það) eins er ég búin að búa til annað orð af sama stofni, að vera með lilluna (ekki sko að vera með Minnu) heldur að vera lítill í sér. Ég hef sem sagt verið með mjög slæm einkenni af ljótunni núna í nokkrar vikur og því fylgja oft misalvarleg einkenni af lillunni. En í gær þá sagði ég ljótunni upp, allavega í bili. Já við hjónin skelltum okkur á þessa fínu árshátíð hjá KEA, þar sem vel var veitt af víni (ekki of vel af mat en góður samt) og félagsskapurinn var prýðilegur og þetta varð hin fínasta skemmtun. En til að geta farið á árshátíðina og skemmt mér varð ég að skilja við ljótuna, það gerist í nokkrum skrefum, fyrsta skrefið er að verða ljótari. Það felst til dæmis í því að fara í klippingu (hver er sætur með blautt hár og þessum kuflum sem láta mann líta út fyrir að vera ekkert nema höfuðið) lita á sér hárið og augabrýr og svona. Svo eru peninga útlát óneitanlega stór þáttur í því að skilja við ljótuna. Já við vitum það að enginn skilnaður er ókeypis (þó hjón fái afslátt ef þau hafa verið gift í innan við ár, en það er allt önnur ella). Þannig að mín gerði sér lítið fyrir í gær og keypti sér einkar kvenlega skó, sem hún var reyndar nýbúin að lýsa því yfir við vinkonu sína að hún gæti ekki verið í, því eins og bóndi einn á Tjörnesinu sagði við mig í gamla daga "þú ert nú ekki mikil dama Auður mín". En í bili allavega hefur ljótan verið hrakin á brott, flogin í vil, og ef ég er farin að finna hana anda ofan í hálsmálið hjá mér þá fer ég bara í nýju skóna mína, sem einungis dama getur verið í, og spranga innan um matarleifar, leikföng og þvott.

föstudagur, febrúar 03, 2006

Vorkun,
af hverju er þetta orð neikvætt? er ekki öllum einhvern tíman vorkun og þá ekkert endilega á slæman hátt heldur eiga bágt. Og með að eiga bágt á ég ekki endilega við að séu að farast úr hungri eða pyntaðir eða eitthvað, heldur bara líði illa sé eitthvað blue, bara vanti einhvern til að vorkenna sér og þá líður tilfinningin yfir. Mín reynsla er sú að ef maður þarf á vorkun að halda en fær hana ekki þá bara eykst hún og margfaldast og breytist í einhverjar allt aðrar tilfinningar sem miklu erfiðara er að ráða við. En það sem er eiginlega ennþá erfiðara en að "gefa" vorkun er að biðja um hana, því ef það er veikleikamerki að sýna vorkun þá er það að biðja um vorkun algjör aumingjaskapur.
Maður er líka alin upp við að vera ekkert að biðja um vorkun, hver hefur ekki séð foreldra bara hlæja eða skipta um umræðuefni þegar barnið meiðir sig svo það fari ekki að grenja af því að því var vorkent. En af hverju ætti það að vera að ala upp aumingja ef maður leyfir barni að gráta þegar það meiðir sig? og hvað með það þó það gráti meira af því það er huggað, gerum við það ekki öll? Mér finnst ég til dæmis algjör aumingji fyrir að geta ekki látið vita að mig vanti að láta hugga mig. En samfélagslega séð er það líka aumingjaskapur að láta hugga sig og guð veit að ég er oft sammála því, fæ til dæmis alveg klígju þegar fólk er að gráta í sjónvarpinu, hvaða stælar eru það? má fólk ekki bara sýna tilfinningar sínar án þess að það sé veikleikamerki??

fimmtudagur, febrúar 02, 2006

Bloggaði fyrstu færsluna mína í langan tíma í gær og var í vandræðum með að koma henni inn, kom svo í ljós að hún var of löng, varð að cutta hana í helming til að ná henni inn. Það er svona að þegja lengi þá liggur manni mikið á hjarta, en ég ætla s.s. að reyna að vera með comeback, milli þess sem ég sinni Minnu og lokaverkefninu og öðru tilfallandi ;) ætli það sé virkilega einhver sem kíkir ennþá á þessa síðu?

Hvers vegna eru ungir Íslendingar hræddir við útlendinga, því getur þetta verið eitthvað annað en hræðsla? Sumir vilja meina að þetta sé lærð hegðun en mér finnst það ekki nóg útskýring, það hlýtur að vera einhver hvati. Strákur í kringum tvítugt sagði við mig um daginn að hann og félagar hans væru að velta því fyrir sér hvernig þeir gætu losnað við sem flest innflytjandur (hann notaði nú reyndar örugglega eitthvað annað orð) á einu bretti, fannst drekaskrúðgangan sem var farin í Rvk. heppilegur staður ef þeir hefðu bara vitað að þetta lið yrði þarna allt á einu bretti. Af hverju eru þessir strákar hræddir? eru þeir hræddir um að missa sessinn sinn í samfélaginu, að á endanum verði það þeir sem verða öðruvísi en ekki útlendingarnir? eru þeir hræddir um að missa vinnuna til útlendinga? (mér finnst það kannski eiga meira heima í löndum þar sem atvinnuleysi er meira) eða er þetta bara fáfræði og ef svo er fáfræði um hvað? helst kannski fáfræði og hræðslan í hendur? eru þau par sem ekkert fær aðskilið? Eru það bara ómenntaðir sem eru fáfróðir eða er þetta vegna þess hversu ung þjóð með unga sögu við erum? Hvað erum við hrædd við????

Rúmum 7 mánuðum seinna fannst henni aftur tímabært að blogga.
Lífið er dásamlegt, ég veit allar klisjurnar og allt saman, þetta er bara satt mér finnst allt alveg magnað og að eignast hana Minnu Kristínu var algjör guðsgjöf. Ekki að ég færi fram á neitt eftir að ég varð ólétt, þá óskaði maður sér þess að barnið yrði heilbrigt og þegar hún kom í heiminn og virtist vera heilbrigð þá óskaði maður sér einskis frekar. En svo kemur með tímanum í ljós að þetta er vær og góð og kát stelpa sem finnst við foreldrarnir alveg mögnuð. Hvað er þá eftir til að óska sér????? Mér dettur allavega ekkert í hug, nema kannski bara annað eintak ;)
En eins og mér persónulega líður vel og finnst lífið brosa við mér þá er nú margt í samfélaginu sem mér mislíkar og margar blogghugsanir sem hafa verið hugsaðar síðustu 4 mánuðina. Því að fyrstu 3 mánuðina komst ekkert annað en Minna litla að í heilabúinu. Ég hef mikið spáð í pólitíkinni, trúmálum, dauðanum (eða kannski frekar ódauðleikanum), barnauppeldi að sjálfsögðu og afleiðingar gjörða fólks í lífi annarra, nýjasta nýtt í heilabúinu er kynþáttahatur.

testing, testing