fimmtudagur, desember 30, 2004

Jæja þá er maður komin í dilkinn sinn, núna vantar mig bara eina eða tvær mömmur til að labba um með, bæði með bumbuna út í loftið og svo seinna með barnavagna. Var að opna heimasíðu á barnalandi og ætla mér að vera ógeðslega væmin þar, en spara það þá hér á móti.

Jæja óvissu ástandinu hefur verið aflétt, fann fyrstu hreyfingarnar í litla skinni í gær og hef verið að finna meira núna í dag. Vá hvað þetta er ógeðslega notalegt maður, skilst reyndar að þetta geti snúist upp í andstæðu þess að vera notalegt, en ég er allavega að fíla þetta mjög vel núna.
Lögð hefur verið lokahönd á matseðil morgundagsins, sem verður bara eitthvað sem er vanalega ekki borðað, s.s. kalkúnn, snjóbaunir, spergikál, bakaðar kartöflur og fleira spennandi, get ekki beðið eftir að byrja að prófa þetta dót maður.
Fékk glósur í gærkvöldi fyrir þetta helvítisupptökupróf sem ég þarf að fara í, það verður samt vonandi ekki svo slæmt, hef bara aldrei áður farið í upptökupróf. Þegar ég féll í sögu í MA um haustið náði ég að jafna það út með betri einkunn um vorið og þegar ég féll í grasafræði á Hvanneyri þá bara tók ég það ekkert aftur. En einhvern tíman verður allt fyrst, gaman að því.
Ef ég fæ yfir sjö þá verð ég að fara með rauðvínsflösku til þeirrar sem lánaði mér glósurnar.

sunnudagur, desember 26, 2004

Gleðileg jól allir saman, vonandi hafa allir haft það eins gott og ég um jólin. Fékk fullt af pökkum og hrúgu af jólakortum og bara ferlega ljúft. Reyndar fékk ég ælupest í hálftíma, eftir jólagrautinn og fram yfir hreindýrasteikina á aðfangadag, en eftir það var ég rosalega hress.
Hreindýrið tókst alveg lista vel þó ég segji sjálf frá, sósan alveg frábær og steikingin akkúrat eins og maður vill hafa hana, þannig að kannski verður rjúpan bara látin víkja ;) ;)

Ég er sko í vinnunni, annars væri ég nú ekki að blogga á annan í jólum, er búin að vera heima hjá mér síðan á þorláksmessukvöld í afslöppun og kósýheitum, fór reyndar aðeins út í vetraríkið í gær. Ferlega rómantískt og skemmtilegt, löbbuðum smá rúnt í hverfinu sem var bara alveg eins og eitthvað annað hverfi í vetrarbúningnum. Þannig að stemmingin er bara mjög góð.

Erum að fara í skírnarveislu á eftir þegar ég er búin á vaktinni, er mjög spennt að vita hvað Bjarkeyjardóttir á að heita, ætla ekki einu sinni að reyna að giska á það, það verður eflaust eitthvað frumlegt og skemmtilegt.
Svo erum við hjónin að velta því fyrir okkur hvernig fari með hefðina sem hefur skapast hjá okkur að halda áramótapartý, höfum verið með opið hús eftir áramótin en það var mjög fámennt í fyrra og þeir sem voru í fyrra eru núna með börn eða ekki fyrir norðan, þannig að nema það komi fram beiðni um að halda þetta, þá hugsa ég að við slaufum því bara. Förum bara að búa okkur til einhverja aðra hefð þar sem börn geta verið með. Maður er víst komin á þann aldur að allir eiga börn eða eru að eignast börn, þá þarf að breyta áherslunum sem er bara mjög gaman.

Jæja núna ætla ég að fara að lesa í vinnunni, það er kosturinn við að vera að vinna á stórhátíðisdögum að einu kröfur yfirmannanna eru að manni leiðist ekki :) :)

miðvikudagur, desember 22, 2004

Jæja best að maður noti tímann í vinnunni í eitthvað gáfulegt, er að vinna núna eftir 3 vikna frí, sem fór reyndar í að taka próf og svona, en var samt ferlega ljúft. Maður er ekkert smá fljótur að venjast því að vinna ekki neitt, sem verður gott upp á fæðingarorlofið í vor, þó að það verði örugglega meiri vinna ;) ;)
Já litla skinn vex og dafnar, mér finnst samt ansi langt frá fyrstu mæðraskoðun, sem ég er búin að fara í, og þangað til í 19. vikna sónarnum, sem ég fer í janúar. Þetta millibils ástand er eitthvað svo óvisst, engin morgunógleði engar hreyfingar ef maginn væri ekki að stækka myndi maður bara gleyma því að maður væri með barni.

Annars er ég bara sjúklega hamingjusöm, gekk ágætlega í prófunum held ég, vinnan er fín, róleg en fín, Helga systir og familýja eru heima og það er alveg yndislegt, þannig að ég sé litlu snúlluna mína á hverjum degi sem er akkúrat skammturinn sem ég þarf. Svo eru jólin að koma og ískalt úti og snjór og jólalegt og ég búin að kaupa næstum allar gjafir og fer á morgun og versla bigtime í matinn án þess að þurfa að borga ;) sem er alltaf skemmtilegt. Þannig að það er óhætt að segja að það sé allt í blóma hjá Auði þessa dagana.