mánudagur, júní 23, 2003

Já það er búið að vera geðveikt að gera síðustu vikuna, fínt að komast aðeins í vinnuna og slappa af, sko þá vinnu þar sem er tölva. Ég er búin að vinna nokkur frægðarverk síðan fyrir viku, sá um skreytingar í eitt brúðkaup, sem var hrikalega fallegt by the way. Kláraði allar skreytingar og brúðarvöndinn og allt daginn fyrir ( klukkan eitt um nóttina) þá gat maður notið dagsins betur, þetta var mjög falleg athöfn og hrærði mann bara, hefði nú átt að hafa vit á því að skæla strax í kirkjunni því ég var með kökk í hálsinum alla veisluna.
Svo ætlaði ég að halda smá tölu en hún varð nú frekar stutt og snubbótt af því ég var alveg að fara að skæla, og þegar Auður skælir þá getur hún ekki talað. En svo var ég með leik og þá gekk þetta aðeins betur, var meira svona djók og ekki eins væmið. En ég held að brúðhjónin hafi bara verið mjög ánægð með daginn, allavega var ég það.

Svo fór ég í gær í jómfrúarferð mína sem leiðsögumaður, fór með 40 manns rúnt um bæinn og á Goðafoss og eitthvað,shit maður ég var ekkert smá stressuð. Var sko ekkert stressuð áður en ég fór svo þegar ég byrjaði að tala kom bara kjaftæði upp úr mér, eða mér fannst það allavega, leið eins og ég hafi ALDREI talað eins lélega þýsku. En fólkið skyldi mig og var bara nokkuð sátt í lokin, bara einn kall sem kvaddi mig ekki brosandi og hann var geðveikt fúll allan tímann þannig að ég tók það ekkert nærri mér. Svo gerði ég eitt í þessari ferð sem ég hef aldrei gert og hélt ég myndi aldrei gera, ég söng í hljóðnemann fyrir alla farþegana. Ok venjulegu fólki finnst þetta kannski ekkert merkilegt en þetta er svona eins og fyrir venjulegt fólk að fara í teygjustökk eða eitthvað, enda hafa mínir nánustu fengið hláturskast þegar ég segi þeim þetta.
Sagði mömmu þetta sem sagði pabba það og hans viðbrögð voru "er hún ekki laglaus?" þetta traust hans í dóttur sinni segir kannski meira en mörg orð um sönghæfileika mína. En mér fannst þetta bara ganga ágætlega og ég var beðin um anna lag (sem ég neitaði harðlega) þannig að þetta hefur varla verið svo slæmt.

Annars er ég að drukkna í vinnu, síðasta helgi var rosaleg, aðallega af því sú sem vinnur aðallega á móti mér var í fríi en ég er bara alls ekki að nenna þessu. Svo fíla ég ekki að þurfa að betla frí eins og hann sér að gera mér greiða með því að gefa mér frí en ekki að ég sé að gera honum greiða með því að vinna, sem ég er af því hann vill alls ekki sleppa mér. En nég verð allavega alveg í fríi á morgun, sem er geggjað, gömlu hjónin eiga silfurbrúðkaupsafmæli og það verður matur og svona. Svo langar mig suður eftir hádegi á miðvikudaginn en það kemur í ljós hvort ég kem því við.

mánudagur, júní 16, 2003

Skipulagsþörf minni hefur verið fullnægt fyrir júní mánuð og ríflega það held ég. Var náttúrulega þetta gæsapartý um daginn og svo núna síðustu helgi var óvissuferð 5 ára stúdenta við MA. Þetta var svo hrikalega skemmtilegt og stemmingin gífurleg, svo vann G-ið Survivor keppnina þannig að þetta fór allt á besta veg. Brjálað að gera blogga seinna.

fimmtudagur, júní 12, 2003

Eitt af því sem við gerðum í gæsaveislunni, partý lýsir þessu ekki nógu vel sko, var að fara í einhverja gjá við Mývatn. Eftir að hafa villst og fengið svo leiðsögumann sendann til að lóðsa okkur komum við að þessari líka geggjuðu gjá. Hún er bara út í miðju hrauninu og ekkert merkt eða neitt og maður eiginlega getur ekki ímyndað sér að það sé nokkuð þarna en allt í einu blasir við manni hola með stiga niður sem virðist engan endi ætla að taka. En þarna niðri er pallur og sem sagt þessi fína heita laug og bara hrikalega notalegt maður, ætla sko pottþétt þangað aftur við fyrsta tækifæri.

Það er búið að vera alveg brjálað að gera hjá mér upp á síðkastið, mjög gaman. Á laugardaginn stóð ég fyrir 12 tíma gæsun, það að vísu þurfti að skipta út fólki, þær sem voru með um daginn fóru heim um kvöldið og aðrar tóku við, en það var hrikalega skemmtilegt. Bara verst hvað það verður erfitt að toppa þetta en þá er bara að leggja sig fram. Svo er ég líka farin að vinna á morgnanna í Viking, minjagripaverslun, og svo eru Helga og Hreinsi flutt inn þannig að það er alltaf nóg að gera.

Svo er reyndar smá mál, sem mér finnst reyndar frekar stórt, í gangi hjá okkur hjónunum, kemst vonandi lausn á það fljótlega. Fór sem sagt til læknis í gær og hann vill meina að næsta skref sé að fara að taka pergotima (eggloshvetjandi lyf) og það er frekar stór ákvörðun að taka, ætlar heldur ekki að ganga hikstarlaust fyrir sig. Ég hef alltaf staðið í þeirri meiningu að það að verða ólétt yrði svona voða rómantískt og kósý og krúttlegt en það missir einhvern veginn ljómann að gera það eftir klukku eins og þar segir. Æi finnst þetta allt eitthvað ögfugsnúið og erfitt, svo er ég víst ekki eina foreldrið að þessu hugsanlega barni þannig að það er að mörgu að hyggja. En eins og ég segi þá er þetta í nefnd og úrksurðar að vænta fljótlega.
Frekar fyndið samt að vera hjá kvensjúkdómalækni og hann setur staut upp í klofið á manni og spyr svo hvort hann sé ekki á réttri leið, ekki mjög traustvekjandi, en ég er svo heppin að vera ekki með fóbíu þannig að mér fannst þetta bara frekar fyndið.

föstudagur, júní 06, 2003

Það er svo langt síðan ég fór í gegnum linka listann á síðunni minni að ég þarf nokkra tíma til að skoða hvað hefur verið að gerast hjá fólki upp á síðkastið. Gaman að hafa allt í einu svona mikið að skoða.

Sé að ég gleymdi að segja frá nafninu á prinsessunni, Margrét Mist, mjög fínt. Heyrði líka annað sem vinkona mín hafði skýrt Veigar Elí, fullt af flottum nöfnum út um allt.

Það er svoleiðis allt á fúll sving hérna í Gránu gömlu, ægileg nefndarstörf í gangi með hvaða lit eigi að velja til að mála húsið með. Ok kannski verður húsið ekki málað hinn daginn, en það að ná sátt um litinn er vissulega fyrsta skerfið af mörgum á átt að því að aktualy mála það. Svo er það að frétta af garðinum að góðir hlutir gerast hægt, en illgresið er farið og það er búið að setja skít og aðeins mold svo nú er bara að setja meiri mold og svo eitthvað ofan í hana.

Annars er brúðkaup ofarlega á baugi hjá mér núna, ekki mitt eigið, fer að styttast í tveggja ára brúðkaupsafmæli sko. Heldur vinkonu minnar, Margrétar (og Temma líka sko) og við vorum einmitt að ræða brúðarvöndinn og eitthvað í dag. Ég á sem sagt að sjá um vöndinn og skreytingar og svona, verð samt meira til aðstoðar með skreytingarnar en vöndurinn er MINN höfuðverkur og ég er pínu kvíðin. Aðallega spennt en líka pínu kvíðin, er haldin fullkomnunaráráttu á háu stigi og geri þess vegna ráð fyrir að gerð þessa vandar komi til með að taka einhverja klukkutíma. Líka eins gott að æfa sig, ég geri vonandi annan seinna í sumar, já já brjálað að gera hjá Auði í þessum málum, ekkert smá gaman. Ég gæti alveg hugsað mér að opna svona brúðkaupsþjónustu, gæti til dæmis heitið I do, sæi bara um allt, mat og skreytingar og boðskort og sali og bíla og ljósmyndun og bara allann pakkann, er örugglega hrikalega skemmtilegt.

Jæja best að fara bara snemma í háttinn, stór dagur á morgun og svona ;)

miðvikudagur, júní 04, 2003

Vá, ég fékk síðustu einkunnina mína í gær og námslánið bara komið inn í dag, LÍN hefur nú ekki verið þekkt fyrir afbragðsþjónustu en þetta fá þeir prik fyrir. Annars er ég bara í ágætum fíling nenni ekkert að blogga og er bara að reyna að njóta lífsins.
Fyndist samt allt í lagi að fá eitthvað af þessu sólskini sem allir eru að tala um að sé alltaf á Akureyri. Þá kannski gengi garðvinnan fljótar fyrir sig.