miðvikudagur, júlí 02, 2008

Ég man þá tíð þegar ég hugsaði í bloggfærslum, alveg sama hvað ég var að spá eða hverju ég lenti í þá var ég alltaf búin að setja það saman í huganum sem blogg. Núna þarf ég að neyða mig til að setja eitthvað inn á bloggið liggur við, ég hef samt trú á að þetta sé æfingaleysi í að tjá huga sinn. Aumingja Óskar minn er sá eini sem "fær" að heyra hvað er að gerast inn í hausnum á mér þessa dagana og það er svo sannarlega ekki alltaf skemmtilegt. Oftast einhverjar áhyggjur og jafnvel smá móðursýki óléttrar konu, það eru nefnilega engar ýkjur að móðurhlutverkið sé það erfiðasta sem tekist er á við. Allavega er ég mest allan daginn að hugsa um afkvæmin mín og hversu mikið ég eigi eftir að "skemma" þau með mismunandi hegðun minni. En í lok dags þá er ég sátt ef ég hef gert mitt besta og ef það tekst ekki þá er ég allavega með áætlun um hvernig sé betra að gera næst þegar sömu aðstæður koma upp.
Annars eiga brúðkaup huga minn allan þessa dagana, gæsanir og ræður og leikir og brúðkaupsafmæli. Allt að gerast einhvern veginn, við erum svo sannarlega á þeim aldri þar sem allir eru að gifta sig, spurning hvað það séu mörg ár í næsta tímabil þar sem allir fara að skilja, giska á svona 10 ár. Því auðvitað er mesta afrekið að vera gift eða búa saman, frekar en að takast að halda almennilega veislu, stundum virðist þetta ruglast dálítið saman finnst mér.