sunnudagur, desember 17, 2006

Jólin, jólin alls staðar,
Mér finnst skemmtilegasti parturinn af jólunum (eða undirbúningi þeirra) vera að hugsa um og velja jólagjafir, allavega flestar jólagjafirnar. Mér finnst svo gaman að velta því fyrir mér hvað fólki vanti eða langi í, eða að gera eitthvað sem ég er ánægð með og gefa á alla línuna eins og ég hef stundum gert. Núna í ár fá til dæmis flestir krakkarnir sömu gjöfina, eða sko hver sniðin fyrir hvert barn en samt sama hugmyndin. Eitt árið vafði ég fullt af krönsum og límdi myndir og málshætti á platta og hengdi á kransana og gaf vinum og vandamönnum. Svo finnst mér rosalega gaman að skrifa jólakortin og vitna í eitthvað sem ég hef gert með þeim sem ég er að skrifa til yfir árið. Gera þetta aðeins persónulegra en önnur kort og láta fólk vita að þegar ég skrifa kortin er ég virkilega að hugsa til þeirra og rifja upp hvaða góðu stundir maður hefur átt á árinu, eða fyrr. Maður er nefnilega að senda glettilega mörgum kort sem maður hittir kannski rétt svo einu sinni á ári, en það gerir kortin ekki síður mikilvæg fyrir manni. Finnst eiginlega ennþá mikilvægara að senda þeim sem ég hitti sjaldan kort en þeim sem ég hitti oft. Núna er maður virkilega kominn í jólagírinn, búinn að pakka öllum gjöfum inn og skrifa flest jólakortin, Sunna komin í heimsókn og allt að verða rólegt og skemmtilegt.

sunnudagur, desember 10, 2006

Fyrir mér er aðdragandi jólanna alltaf erfiður tími, verð alveg rosalega "mellankolísk" og döpur. Fer að hugsa um alla sem eiga um sárt að binda og hafa átt erfitt ár, eða kannski mörg erfið ár, finnst ég ofboðslega heppin en samt um leið trúi ég því eiginlega ekki að þessi lukka mín sé komin til að vera. Núna er ég til dæmis rosalega hrædd um Minnu, og ekki bara að það komi eitthvað hræðilegt fyrir hana heldur líka að ég gleymi. Gleymi því hvernig hún er í dag og hvað hún sagði í morgun og hvernig hún knúsaði mig í gær og og og ... svo sakna ég líka þess sem var, hvað hún var ofboðslega lítil og brothætt. Var að skoða gamlar myndir og fattaði þá að ég var búin að gleyma því þegar þessi og hin myndin var tekin og nákvæmlega það sama á ég eftir að hugsa þegar ég skoða myndir ársins í ár á næsta ári. Þetta finnst mér rosalega sorglegt, eins og ég sagði þegar hún var bara nýfædd og við ennþá á fæðingadeildinni: mig langar að halda á henni með kinnina hennar við mína kinn, alltaf. En eins og ljósmóðirin benti á þá verður það erfitt þegar hún er að fermast til dæmis.
Ég veit ekki af hverju þessar tilfinningar verða svona sterkar fyrir jólin, flestir sem ég þekki gleðjast aðallega. En það eru náttúrulega líka áramót og kannski spila þau stærri rullu í þessu en ég geri mér grein fyrir, þannig að ég er að fara yfir hlutina hvernig þeir voru og hafa verið og eins að velta því fyrir sér hvernig þeir muni verða í framtíðinni. En það er svo ótrúlegt að mörg undanfarin ár hafa verið þau bestu í lífi mínu og einhvern vegin býst ég aldrei við að það næsta geti orðið betra, en samt verður það það trekk í trekk. Ætli mér sé ekki bara svona eðlislæg svartsýni eða biturð hvað þetta varðar? Eða að mér finnist ég hafa himinn höndum tekið nú þegar? Gæti líka verið það.